Íslendingaliðið West Ham rótburstaði Derby á Pride Park, heimavelli Derby, í ensku úrvalsdeildinni í dag. Lokatölurnar urðu, 0:5, eftir að staðan í leikhléi hafði verið, 0:1. Lee Bowyer skoraði tvö marka West Ham og þeir Matthew Ethrington, Jonathan Spector og Nolberto Solano gerðu sitt markið hver. Textalýsing frá leiknum er hér að neðan.
69. 0:5. Mörkunum rignir inn í mark Derby en Perúbúinn Nolberto Solano var að skora fimmta markið með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu.
60. 0:4 West Ham heldur áfram að skora. Lee Bowyer kemur liðinu í 4:0 með skoti af stuttu færi eftir snarpa sókn. Annað mark Bowyers í leiknum.
54. 0:3 West Ham er að taka heimamenn í Derby í bakaríið. Bandaríski varnarmaðurinn Jonathan Spector skorar þriðja mark West Ham af stuttu færi eftir hornspyrnu. Fyrsta mark hans í 68. leikjum í úrvalsdeildinni.
51. 0:2 Matthew Etringhton kemur Íslendingaliðinu í tveggja marka forystu með þrumuskoti úr vítateignum sem Stephen Bywater markvörður Derby réð ekki við.
47. West Ham byrjar seinni hálfleikinn vel og Matthew Upson var óheppinn að bæta ekki öðru marki við en skot hans úr vítateignum small í þverslánni.
Kominn er hálfleikur á Pride Park. West Ham hefur 1:0 yfir með marki frá baráttujaxlinum Lee Bowyer.
41. Lee Bowyer er búinn að koma West Ham yfir gegn Derby á Pride Park. Bowyer lagði boltann fyrir sig með höndinni áður en hann skoraði með skoti á milli fóta markvarðar Derby en Mark Clattenburg dómari leiksins sá ekkert athugavert og dæmdi markið gott og gilt.
31. Nolberto Solano er hársbreidd frá því að koma West Ham. Glæsilegt skot Perúmannsins beint úr aukaspyrnu small í markvinklinum.
Fyrri hálfleikur í leik Derby og West Ham er hálfnaður og staðan er, 0:0. Leikurinn hefur einkennst af mikilli baráttu en West Ham hefur fengið besta færið þegar Stephen Bywater markvörður Derby varði skot frá Carlton Cole.
Lið Derby: Stephen Bywater, Tyrone Mears, Darren Moore, Marc Edworthy, Andy Griffin, Giles Barnes, Matt Oakley, Stephen Pearson Gary Teale, Kenny Miller, Eddie Lewis.
Lið West Ham: Robert Green, Lucas Neill, Daniel Gabbidon, Matthew Upson, George McCartney, Nolberto Solano, Jonathan Spector, Lee Bowyer, Matthew Etherington, Carlton Cole, Luis Boa Morte.