Arsenal endurheimti toppsætið

Aleksandr Hleb hjá Arsenal og Stephen Hunt hjá Reading eigast …
Aleksandr Hleb hjá Arsenal og Stephen Hunt hjá Reading eigast við í leiknum í kvöld. Reuters

Arsenal komst í efsta sæti úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á nýjan leik í kvöld með því að sigra Reading örugglega á útivelli, 3:1. Mathieu Flamini, Emmanuel Adebayor og Aleksandr Hleb komu Arsenal þremur mörkum yfir en Nicky Shorey minnkaði muninn fyrir Reading.

Þeir Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson léku báðir allan leikinn með Reading.

Arsenal og Manchester United eru bæði með 30 stig og sama markamismun en Arsenal hefur skorað fleiri mörk, auk þess sem liðið á einn leik til góða og er enn ósigrað í deildinni. Reading er áfram í 12. sæti deildarinnar með 13 stig.

Arsenal fékk dauðafæri strax á 4. mínútu þegar Emmanuel Adebayor skaut í stöng.

Arsenal sótti nær látlaust fyrsta hálftímann en fékk ekki fleiri færi. Á 31. mínútu átti hinsvegar Brynjar Björn Gunnarsson mikinn þrumufleyg á mark Arsenal af 25 m færi sem Manuel Almunia varði glæsilega.

Arsenal náði forystunni á 44. mínútu eftir snögga og laglega sókn. Adebayor sendi boltann inní vítateiginn hægra megin á Aleksandr Hleb, hann renndi boltanum fyrir á Mathieu Flamini sem skoraði, 0:1.

Emmanuel Adebayor skoraði annað markið, 0:2, á 52. mínútu eftir góða sókn upp vinstri vænginn sem endaði á því að Cesc Fabregas renndi boltanum út á Adebayor sem sendi hann í hornið fjær með nákvæmu innanfótarskoti.

Adebayor skoraði aftur eftir skyndisókn á 55. mínútu en markið var dæmt af vegna rangstöðu, sem virtist rangur dómur.

Aleksandr Hleb kom Arsenal í 3:0 á 78. mínútu eftir sendingu frá Emmanuel Eboue.

Reading náði loks að minnnka muninn í 3:1 á 86. mínútu. Eftir þunga sókn skallaði Shane Long í stöng, boltinn hrökk til Nicky Shorey sem skoraði af stuttu færi. Shorey átti nokkrum mínútum áður skot í stöng úr aukaspyrnu.

Lið Reading: Hahnemann, Murty, Ívar, Sonko, Shorey, Hunt, Brynjar Björn, Harper, Convey, Doyle, Kitson.

Lið Arsenal: Almunia, Sagna, Gallas, Toure, Clichy, Eboue, Flamini, Fabregas, Rosicky, Hleb, Adebayor.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert