Nokkrir breskir fjölmiðlar greindu frá því í gær að Chelsea hygðist reyna að fá Eið Smára Guðjohnsen til baka frá Barcelona í janúar þegar leikmannamarkaðurinn verður opnaður að nýju. Það er Henk ten Cate, nýráðinn þjálfari Chelsea, sem er sagður ólmur í að fá Eið Smára aftur til Stamford Bridge en hollenski þjálfarinn, sem var aðstoðarmaður Frank Rijkaards hjá Barcelona áður en hann tók við þjálfun hjá Ajax, hefur mikið álit á Íslendingnum.
Barcelona keypti Eið Smára frá Chelsea á 8 milljónir punda, rúman 1 milljarð króna, en landsliðsfyrirliðinn hefur átt erfitt uppdráttar hjá Katalóníuliðinu á yfirstandandi leiktíð og hefur ekki fengið mikið að spreyta sig með því.
Eiður hefur spilað með Barcelona í Meistaradeildinni í ár og má því ekki leika með öðru liði í keppninni en forráðamenn Chelsea vilja styrkja leikmannahópinn enda missa þeir Didier Drogba, Salomon Kalou, Michael Essien og John Obi Mikel í meira en einn mánuð í byrjun næsta árs í Afríkukeppnina.