Cesc Fabregas, Spánverjinn snjalli í liði Arsenal, segist nú reiðubúinn að vera í herbúðum Lundúnaliðsins þar til knattspyrnuferli hans lýkur. Fabregas, sem er tvítugur að aldri, hefur verið sterklega orðaður við spænsku stórliðin Real Madrid og Barcelona en hann kom til Arsenal frá Börsungum.
Fabregas segir í viðtali við breska blaðið The Sun að hann sé ánægðari hjá Arsenel en nokkru sinni áður en hann kom til félagsins fyrir fimm árum. Stjarna Spánverjans hefur skinið skært með Arsenal-liðinu á yfirstandandi leiktíð en hann hefur átt hvern stórleikinn á fætur öðrum með liðinu.
,,Fyrst þegar ég kom til Englands var hugsunin alltaf sú að snúa til Spánar einn daginn en í sannleika sagt þá er ég afar ánægður með veruna hjá Arsenal, ég elska London og fólkið sem þar býr. Hvern dag hef ég meiri löngun til að vera hjá Arsenal í langan tíma - þar til ferli mínum lýkur. Enska úrvalsdeildin er mögnuð. Það er mikil ástríða í henni, mikill hraði og fjör og þetta kann ég vel að meta," segir Fabregas við The Sun.