Bandaríski auðkýfingurinn Roy Disney, sem er barnabarn Walt Disney sem bjó á sínum tíma til þekktustu teiknimyndapersónur sögunnar, hefur hug á því að kaupa enska úrvalsdeildarliðið Derby County . Roy er ekkert unglamb, en hann er 77 ára gamall, og þrátt fyrir slæma stöðu Derby á botni ensku úrvalsdeildarinnar hefur Roy ekki skipt um skoðun.
Það er breska dagblaðið Daily Mail sem greinir frá áhuga Bandaríkjamannsins sem á enn stóran hlut í Disney-veldinu. Ef af kaupunum verður þá verður Derby fjórða enska úrvalsdeildarliðið sem er í eigu Bandaríkjamanna en hin þrjú eru Manchester United, Liverpool og Aston Villa.
Derby er í neðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar þegar 13 umferðum er lokið en liðið er aðeins með 6 stig og hefur aðeins fagnað sigri í einum leik. Derby hefur aðeins skorað 5 mörk en fengið á sig 31 mark.