Benítez reiðubúinn að selja Carson

Scott Carson markvörður Aston Villa.
Scott Carson markvörður Aston Villa. Reuters

Rafel Benítez knattspyrnustjóri segist ekki ætla að standa í vegi fyrir markverðinum Scott Carson kjósi hann að gera samning við Aston Villa. Carson er í láni hjá Villa en forráðamenn félagsins vilja kaupa hann frá Liverpool.

Carson, sem var í láni hjá Charlton á síðustu leiktíð, hefur átt góðu gengi að fagna með Aston Villa á tímabilinu og er talið líklegt að hann verði í fyrsta sinn í byrjunarliði Englendinga þegar þeir mæta Austurríkismönnum í vináttuleik á morgun.

,,Maður skilur að hann vilji spila. Hann veit að Pepe Reina er frábær og það myndi reynast honum erfitt að keppa við hann. Scott er mikill atvinnumaður. Hann stendur á tímamótum á sínum ferli og þarf á leikjum að halda. Við höfum Pepe Reina, Charles Itandje og David Martin sem markverði svo við erum vel staddir," segir Benítez á vef félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert