Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal hefur í tíð sinni hjá Lundúnaliðinu verið ótrúlega naskur að finna efnilega leikmenn, bæði í heimalandi sínu og í Afríku, sem hafa gert það gott hjá félaginu. Nú hefur Wenger boðið Tresor Mputu, 21 árs gömlum Kongómanni til reynslu en hann er af mörgum kallaður næsti Samuel Eto’o.
Leikmaðurinn kemur til skoðunar hjá Arsenal í næstu viku og verður hjá félaginu í 10 daga. Hann leikur með TP Mazembe í heimalandi sínu og segir formaður félagsins að mörg félög í Evrópu hafi borið víurnar í Mputu, flest frá Belgíu og Frakklandi.
,,Hann er einn efnilegasti leikmaðurinn sem fram hefur komið í Afríku síðustu árin og ég er þess fullviss að Wenger verður ánægður eftir tíu daga," segir Idi Kalonda formaður TP Mazembe í viðtali við breska blaðið The Sun.
Kolo Toure og Emmanuel Eboue, sem báðir koma frá Fílabeinsströndinni, voru báðir óskrifað blað þegar Wenger fékk þá til félagsins en báðir hafa átt góðu gengi að fagna og eru lykilmenn í frábæru liði Arsenal.