Leeds United, sem hóf keppni í haust með 15 stig í mínus, komst í dag upp í fjórða sæti 2. deildar ensku knattspyrnunnar með því að sigra Swindon, 2:1.
Jermaine Beckford skoraði bæði mörk Leeds í miklum baráttuleik þar sem sjö leikmenn Swindon fengu að líta gula spjaldið.
Leeds hefur nú unnið 13 af 16 leikjum sínum og þrátt fyrir refsinguna er liðið nú komið með 26 stig, aðeins tveimur minna en toppliðin Carlisle og Orient sem eru með 28 stig. Í þriðja sætinu eru svo fyrrum Evrópumeistarar Nottingham Forest með 27 stig og í toppbaráttu deildarinnar eru því tvö félög sem hafa unnið Evrópukeppni á árum áður.