Innbrotsþjófar í Liverpoolborg og nágrenni fylgjast greinilega vel með hvenær knattspyrnumenn Liverpoolliðsins eru fjarverandi með liði sínu eða landsliðum. Brotist var inní íbúðarhús sóknarmannsins Dirks Kuyts, sem er fjarverandi með landsliði Hollands, og hann er fimmti leikmaður liðsins sem verður fyrir slíku á aðeins einu og hálfu ári.
Félagar Kuyts, þeir Jerzy Dudek, José Pepe Reina, Daniel Agger og Peter Crouch hafa allir orðið fyrir sömu lífsreynslu síðustu 18 mánuðina. Mynstrið er ávallt það sama, innbrotin eru framin á meðan þeir eru fjarverandi með Liverpool eða viðkomandi landsliðum, eða þá í sumarfríí á heimaslóðum í tilfelli Dudeks, sem nú er reyndar farinn frá Liverpool til Real Madrid.