England tapaði og Rússar náðu síðasta EM-sætinu

Steven Gerrard, fyrirliði Englands, vonsvikinn á meðan Króatar fagna marki.
Steven Gerrard, fyrirliði Englands, vonsvikinn á meðan Króatar fagna marki. Reuters

Rússar urðu í kvöld 16. og síðasta þjóðin til að tryggja sér sæti í úrslitakeppni EM í knattspyrnu. Englendingum dugði jafntefli gegn Króötum á Wembley en fóru illa að ráði sínu og töpuðu, 2:3, eftir að hafa unnið upp tveggja marka forskot. Á meðan unnu Rússar sigur á Andorra, 1:0, á útivelli og náðu öðru sæti E-riðils. Fyrr í kvöld hrepptu Tyrkland, Svíþjóð og Portúgal þau þrjú EM-sæti sem einnig voru óuppgerð fyrir leiki lokaumferðarinnar.

Englendingar fengu blauta tusku í andlitið strax á 9. mínútu en þá náðu Króatar forystunni með marki frá Nico Kranjcar, leikmanni Portsmouth, 0:1. Skot af 35 m færi og Scott Carson missti boltann klaufalega framhjá sér.

Ekki batnaði ástandið á Wembley á 14. mínútu. Ivica Olic slapp innfyrir vörn Englands, lék á Carson í markinu og skoraði, 0:2.

Nú þurftu Englendingar helst að treysta á að Andorra héldi jöfnu gegn Rússlandi en sú von fjaraði út að mestu þegar Dmitri Sychev kom Rússum yfir í Andorra, 1:0, á 39. mínútu.

Tyrkir og Svíar eru komnir á EM, Norðmenn og Norður-Írar úr leik.

Steve McClaren gerði tvær breytingar á liði Englands í hálfleik og setti David Beckham og Jermain Defoe inná fyrir Shaun Wright-Phillips og Gareth Barry.

Áhorfendur á Wembley tóku við sér á ný á 56. mínútu. Englendingar fengu þá vítaspyrnu þegar brotið var á Defoe og Frank Lampard skoraði, 1:2.

Og á 64. mínútu ætlaði allt um koll að keyra þegar Peter Crouch jafnaði metin, 2:2. David Beckham sendi boltann fyrir mark Króata þar sem Crouch tók hann niður og skoraði. Með þeirri stöðu var England komið með EM-farseðlana í hendurnar.

Portúgal tryggði sér 15. EM-sætið með 0:0 jafntefli gegn Finnum og þar með var bara spurning hvort England eða Rússland kæmist í úrslitakeppnina.

En vonir Englendinga dvínuðu á ný þegar þeir lentu aftur undir á 77. mínútu, þegar Mladen Petric skoraði með þrumuskoti af 25 metra færi, 2:3.

Byrjunarlið Englands var þannig skipað: Scott Carson - Micah Richards, Jolean Lescott, Sol Campbell, Wayne Bridge - Shaun Wright-Phillips, Steven Gerrard, Gareth Barry, Frank Lampard, Joe Cole - Peter Crouch.

Varamenn: Ashley Cole, David James, Wes Brown, Owen Hargreaves, Jermain Defoe, David Beckham, Darren Bent.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka