McClaren: Ég segi ekki af mér

David Beckham og Steven Gerrard daufir í dálkinn eftir tapið …
David Beckham og Steven Gerrard daufir í dálkinn eftir tapið gegn Króatíu í kvöld. Reuters

Steve McClaren, landsliðsþjálfari Englands, kvaðst ekki vera á þeim buxunum að segja starfi sínu í lausu eftir landsleikinn gegn Króötum á Wembley í kvöld, þrátt fyrir 2:3 ósigur sem þýðir að England kemst ekki í úrslitakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu 2008.

„Ég er ekki að fara að segja af mér. Ég tek mína ábyrgð, mitt verkefni var að koma liðinu áfram og mér tókst það ekki. Ég ræði ekki mína framtíð frekar. Við brugðumst fjölda fólks og verðum að taka því," sagði McClaren við BBC eftir leikinn.

Englendingar lentu 0:2 undir snemma leiks en jöfnuðu metin í seinni hálfleik þegar Frank Lampard og Peter Crouch skoruðu, 2:2. Þau úrslit hefðu nægt enska liðinu. En Mladen Petric tryggði Króötum sigur, 3:2, með marki 13 mínútum fyrir leikslok og þar með komust Rússar áfram úr riðlinum, ásamt Króötum, þar sem Rússarnir lögðu Andorra 1:0 á meðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert