David Beckham sagði eftir ósigur Englands gegn Króatíu í kvöld að það kæmi ekki til greina að draga sig í hlé frá enska landsliðinu þrátt fyrir að það hefði ekki náð því takmarki sínu að komast í úrslitakeppni Evrópumótsins.
Beckham, sem var varamaður í fyrsta skipti í landsleik í níu ár en kom inná í hálfleik og lagði upp jöfnunarmark Englands, 2:2, lék sinn 99. landsleik en hann spilar nú með LA Galaxy í Bandaríkjunum og því hafa margir dregið framtíð hans með landsliðinu í efa.
„Ég er ekki að hætta, það sama sagði ég þegar ég var settur út úr liðinu, og líka þegar ég kom aftur. Ég ætla að halda áfram. Við erum mjög vonsviknir með úrslitin og að sjálfsögðu er þjóðin vonsvikin yfir því að við komumst ekki í úrslitakeppnina. Ef maður sigrar ekki, kemst maður ekki áfram. Við stóðum okkur ekki, og því fór sem fór. Búið mál," sagði Beckham við fréttamenn eftir leikinn á Wembley.