Fabio Capello, hinn sigursæli ítalski knattspyrnuþjálfari, kveðst tilbúinn til að taka við landsliði Englands. Enska knattspyrnusambandið er nú að hefja leit að eftirmanni Steves McClarens sem var sagt upp störfum í morgun.
Capello, sem er 61 árs, gerði Real Madrid að Spánarmeisturum síðasta vetur en var samt látinn fara þaðan í vor. Hann á glæsilegan feril að baki á Ítalíu þar sem AC Milan, Juventus og Roma unnu stóra titla undir hans stjórn og hann hefur oft gefið til kynna áhuga sinn á að starfa í Englandi.
„Það væri frábær áskorun fyrir mig. Ég er á réttum aldri til að takast á við þessa baráttu," sagði Capello við ítalska dagblaðið Gazzetta dello Sport í dag en hann starfar sem þulur á leikjum hjá RAI, ítalska sjónvarpinu.