Capello tilbúinn að taka við enska landsliðinu

Fabio Capello langar til að taka við landsliði Englands.
Fabio Capello langar til að taka við landsliði Englands. Reuters

Fabio Capello, hinn sigursæli ítalski knattspyrnuþjálfari, kveðst tilbúinn til að taka við landsliði Englands. Enska knattspyrnusambandið er nú að hefja leit að eftirmanni Steves McClarens sem var sagt upp störfum í morgun.

Capello, sem er 61 árs, gerði Real Madrid að Spánarmeisturum síðasta vetur en var samt látinn fara þaðan í vor. Hann á glæsilegan feril að baki á Ítalíu þar sem AC Milan, Juventus og Roma unnu stóra titla undir hans stjórn og hann hefur oft gefið til kynna áhuga sinn á að starfa í Englandi.

„Það væri frábær áskorun fyrir mig. Ég er á réttum aldri til að takast á við þessa baráttu," sagði Capello við ítalska dagblaðið Gazzetta dello Sport í dag en hann starfar sem þulur á leikjum hjá RAI, ítalska sjónvarpinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert