Benítez með áhuga á starfi landsliðsþjálfara?

Rafael Benítez er greinilega á öndverðum meiði við eigendur Liverpool …
Rafael Benítez er greinilega á öndverðum meiði við eigendur Liverpool þessa dagana. Reuters

Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, gaf til kynna að hann hefði áhuga á að taka við enska landsliðinu á fréttamannafundi hjá félaginu í gær. Hann lét orðin falla í hálfkæringi en kvaðst síðan hafa talað af fullri alvöru.

Benítez var seinn fyrir á fréttamannafundinn þar sem hann tafðist vegna samtala við eigendur félagsins, George Gillett og Tom Hicks. Samkvæmt BBC var greinilegt að í þeim viðræðum voru ekki allir sammála um hvaða stefnu ætti að taka í leikmannamálum á næstunni. Talið er að Benítez hafi lagt línur um hvaða leikmenn hann vildi kaupa í janúar en þeir Gillett og Hicks hafi sagt að þeir væru ekki farnir að hugsa svo langt.

„Kannski ég gæti tekið við af Steve McClaren ef ég tek mig á í enskunáminu," sagði Benítez við fréttamennina. Eftir frekari spurningar um það mál sagði hann. „Ég sagði þetta í fullri alvöru, hver veit hvað framtíðin býr í skauti sér," sagði Benítez. Á fundinum svaraði hann síðan spurningum um hin ýmsu mál á sama veg: „Ég einbeiti mér algjörlega að því að þjálfa og stjórna mínu liði."

Í yfirlýsingu frá eigendunum segir: „Við munum leggja allar umræður um kaup og sölur á leikmönnum til hliðar þar til við komum til Liverpool í desember og setjumst niður með knattspyrnustjóranum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert