Liverpool var að smella sér upp í þriðja sætið í ensku úrvalsdeildinni með öruggum 3:0 útisigri á Newcastle. Sigur Liverpool var mjög öruggur og hefði sá sigur hæglega getað orðið stærri. Steven Gerrard, Dirk Kuyt og Ryan Babel gerðu mörkin fyrir Liverpool sem hefur 27 stig, er þremur stigum á eftir Manchester United og Arsenal. Textalýsing frá leiknum er hér að neðan.
Alan Wiley flautar til leiksloka á St.James Park. Liverpool leggur Newcastle, 0:3. Annað þriggja mark tap Newcastle í röð á heimavelli staðreynd en Portsmouth hrósaði sigri á dögunum á St.James Park, 1:4.
79. Rafael Benítez gerir þriðju breytingu á liði sínu. Fyrirliðinn Steven Gerrard fer útaf og inná í hans stað kemur Peter Crouch.
75. Norðmaðurinn John Arne Riise kemur inná í liði Liverpool fyrir Hollendinginn Dirk Kuyt.
66. 0:3. Ryan Babel rekur smiðshöggið á glæsilega sókn Liverpool þegar hann skorar með góðu skoti eftir sendingu frá Steven Gerrard. Margir stuðningsmenn Newcastle standa upp úr sætum sínum í kjölfarið og eru búnir að fá nóg.
62. Fernando Torres kemst í gott færi en Shay Given ver skot Spánverjans með góðu úthlaupi. Þriðja mark Liverpool liggur í loftinu.
58. Harry Kewell fer af velli í liði Liverpool og inná í hans stað er kominn Ryan Babel og N'Zogbia er kallaður af velli í liði Newcastle fyrir James Milner. Stuðningsmenn Newcastle eru ekki ánægðir með þá ákvörðun Allardyce að kalla N'Zogbia og láta hann heyra það.
50. Sam Allardyce knattspyrnustjóri Newcastle gerir breytingu á liði sínu. Tyrkinn Emre er kallaður af velli og inná í hans stað kemur Joey Barton.
46. 0:2 Dirk Kyut skorar af stuttu færi eftir hornspyrnu frá Steven Gerrard. Sjötta mark Hollendingsins á tímabilinu.
Alan Wiley flautar til leikhlés. Liverpool er 0:1 yfir á St.James Park með marki frá Steven Gerrard. Liverpool hefur haft tögl og hagldir og fengu liðsmenn Newcastle það óþvegið frá stuðningsmönnum liðsins þegar þeir gengu til búningsherbergja.
44. Liverpool hársbreidd frá að bæta öðru marki við. Fyrst skaut Torres í Given markvörð sem kominn var út fyrir vítateig. Boltinn barst svo aftur til Torres sem skaut í opið mark Newcastle en boltinn fór í stöngina.
38. Fyrsta marktilraun Newcastle. Alan Smith á gott skot rétt utan teigs en boltinn fór hárfínt framhjá.
28. 0:1 Steven Gerrard skorar með glæsilegu skoti af um 25 metra færi. Liverpool fékk aukaspyrnu, Lucas Leiva renndi boltanum á Gerrard sem lét vaða á markið og söng boltinn í netinu fyrir aftan Shay Given.
22. Steven Gerrard á þrumuskot á Newcastle markið af um 25 metra færi sem Given markvörður gerir vel í að verja. Fyrsta markskotið í leiknum staðreynd.
Stundarfjórðungur er liðin af leiknum á St.James Park og hefur ekkert markvert gerst þessar fyrstu mínútur. Liverpool hefur haft boltann meira minna en hefur ekki tekist að færa sér það í nyt.
Liðin eru þannig skipuð:
Newcastle: Given, Geremi, Beye, Rozehnal, Jose Enrique, Smith, Butt, Emre, N'Zogbia, Viduka, Martins.
Varamenn: Harper, Carr, Barton, Milner, Edgar.
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Arbeloa, Gerrard, Lucas, Sissoko, Kewell, Torres, Kuyt.
Varamenn: Itandje, Riise, Crouch, Babel, Mascherano.
Liverpool er annað tveggja liða sem er taplaust í deildinni en forystusauðirnir í Arsenal hafa ekki beðið ósigur í deildinni.
Newcastle steinlá í síðasta heimaleik sínum en liðið tapaði fyrir Portsmouth, 1:4, í byrjun nóvember.
Newcastle hefur aðeins tekist að leggja Liverpool að velli í fjórum af síðustu 12 viðureignum liðanna á St.James Park. Á síðustu leiktíð fagnaði þó Newcastle sigri, 2:1.