Nýliðar Derby í ensku úrvalsdeildinni hafa ákveðið að skipta um mann í brúnni en eftir fund knattspyrnustjórans Billy Davies með Adam Pearson stjórnarformanni félagsins í morgun var ákveðið eð Davies léti af störfum.
Derby hefur aðeins unnið einn leik af 14 í úrvalsdeildinni og situr á botni deildarinnar með aðeins 6 stig. Liðið tapaði á laugardaginn fyrir Chelsea á heimavelli, 2:0. Nýliðarnir hafa fengið þrjá stóra skelli á tímabilinu. Þeir töpuðu fyrir Liverpool, 6:0 og 5:0 gegn bæði Arsenal og West Ham.
,,Það var sameiginleg ákvörðun okkar að það væri best fyrir báða aðila að enda samstarfið og teljum þetta sé rétta ákvörðunin á þessum tímapunkti," segir Pearson.