Enska knattspyrnusambandið hefur ákært Alex Ferguson, knattspyrnustjóra Manchester United, fyrir framkomu sína við Mark Clattenburg dómara í leik liðsins gegn Bolton í úrvalsdeildinni á laugardaginn. Ferguson á sekt og jafnvel leikbann yfir höfði sér.
Clattenburg rak Ferguson af varamannabekk United í hálfleik eftir að Skotinn orðhvassi hafði sent honum tóninn vegna dómgæslunnar. Bolton vann leikinn, 1:0. Ferguson var ekki runnin reiðin í dag og hélt áfram að gagnrýna Clattenburg.
„Maður á alltaf von á því að lið sem er við botn deildarinnar berjist af öllum kröftum, vegna þess að það býr ekki yfir sömu gæðum og lið á borð við okkar - þess vegna er staða liðanna svona ólík. En lykilatriðið er hvernig dómarinn höndlar slíkan leik, hann er sá aðili sem framfylgir knattspyrnureglunum. Þar teljum við okkur hafa verið svikna," sagði Ferguson við fjölmiðla í dag.
Ferguson hefur verið gefinn frestur til 11. desember til að halda uppi vörnum fyrir framkomu sína.