Louis van Gaal fyrrum landsliðsþjálfari Hollendinga sem nú er við stjórnvölinn hjá hollenska liðinu AZ Alkmaar, sem Grétar Rafn Steinsson leikur með, segir vel koma til greina að taka við þjálfun enska landsliðsins standi honum það til boða.
Van Gaal hefur verið þjálfari AZ Alkmaar frá árinu 2005 en þar áður var stýrði hann liðum Ajax og Barcelona við góðan orðstír. Hann segir að ákvæði séu í samningi sínum að geta farið bjóðist honum starf sem landsliðsþjálfari.
„Mér bauðst að taka við þjálfun enska landsliðsins fyrir nokkrum árum en ég afþakkaði það. Kannski verður leitað til mín aftur en það eru margir kandítatar og ég veit að möguleikarnir eru ekki miklir að ég verði næsti landsliðsþjálfari Englands. Ég hef áhuga því annars væri ég ekki með ákvæði í samningi mínum að geta farið ef það býðst að taka við landsliði,“ segir Van Gaal.