José Mourinho, fyrrum knattspyrnustjóri Chelsea, hefur gefið færi á sér sem næsta landsliðsþjálfara Englands í knattspyrnu.
Hann sagði í viðtali við götublaðið The Sun sem kom út laust fyrir miðnættið að hann væri tilbúinn til viðræðna við enska knattspyrnusambandið. Mourinho var þó varkár í orðum sínum.
„Þið verðið að spyrja þá hjá enska sambandinu hvort þeir hafi áhuga á að bjóða mér starfið. Ég get ekki sagt meira nema fram komi að áhuginn sé fyrir hendi hjá þeim. Segið sambandinu að tala við mig. Við verðum að bíða og sjá hvað setur en ég útiloka ekkert,“ sagði Mourinho en ljóst er að margir enskir knattspyrnuáhugamenn vilja fá hann til að taka við landsliði þeirra.