Hópur stuðningsmanna Liverpool hefur boðað til hópgöngu á leik liðsins gegn Porto í Meistaradeild Evrópu í kvöld, til stuðnings knattspyrnustjóranum Rafael Benítez.
Talið er að um 5.000 manns muni fylkja liði frá bar í nágrenni Anfield og vilja stuðningsmennirnir með þessu styðja við bakið á Benítez sem hefur átt í deilum við hina bandarísku eigendur félagsins, Tom Hicks og George Gillett, um hvernig skuli staðið að leikmannakaupum.
Hópurinn kallar sig "Reclaim the Kop" og forsvarsmaður hans, John Mackin, sagði við Daily Telegraph í dag. "Tilgangur knattspyrnufélagsins Liverpool er ekki að safna auðæfum. Tilgangur þess er að vinna titla og vera stolt stuðningsmanna sinna. Ekkert annað, og Rafa er lang þýðingarmesti hlekkurinn á Anfield, af öllum."
Vegna þessara deilna er framtíð Spánverjans á Anfield talin ótrygg. Hann hefur tvisvar á síðustu dögum sent þeim Hicks og Gillett tóninn í fjölmiðlum og sagt að þeir skilji ekki eðli leikmannamarkaðarins. Benítez vill huga strax að leikmannakaupum en þeir bandarísku telja nóg að gera það þegar opnað verður fyrir félagaskiptin um áramót.