Ashley Cole vinstri bakvörður Chelsea og enska landsliðsins segir að Portúgalinn José Mourinho sé besti kosturinn að taka við þjálfun enska landsliðsins en leit stendur nú yfir að nýjum þjálfara eftir að Steve McClaren var sagt upp störfum.
„José er frábær knattspyrnustjóri og ég naut þess að spila undir hans stjórn. Ég held að hann sé einn færasti á sínu sviði í heiminum,“ sagði Cole í viðtali við fréttavef Sky en Mourinho fékk Cole frá Arsenal á sínum tíma þegar hann var við stjórnvölinn hjá Chelsea.
Cole gat ekki leikið gegn Króötum í síðustu viku vegna meiðsla en þar varð draumur Englendinga um að komast í úrslitakeppni EM að engu og segir Cole það sé mikið áfall.
„Við erum allir mjög svekktir að hafa ekki komist áfram. Allir vilja taka þátt í stórmóti og að missa af því er gríðarlegt áfall,“ segir Cole.