Ramos: Vörnin er vandamálið

Darren Bent skoraði sigurmark Tottenham og sækir hér að markverði …
Darren Bent skoraði sigurmark Tottenham og sækir hér að markverði AaB. Reuters

Juande Ramos knattspyrnustjóri Tottenham sagði að varnarleikurinn væri vandamálið eftir að lið hans vann nauman sigur á AaB frá Danmörku, 3:2, í UEFA-bikarnum í kvöld.

Tottenham lenti 0:2 undir í fyrri hálfleik en skoraði þrívegis á fyrstu 20 mínútum síðari hálfleik og náði að innbyrja sigur sem fleytti liðinu á toppinn í sínum riðli.

„Við þurfum að vinna í varnarleik okkar. Aðalmálið hjá fótboltaliði er að finna jafnvægið, vörnin fær á sig of mörg mörk og við verðum að finna lausn á því þar sem við getum ekki skorað þrjú mörk í hverjum leik.

Margir þeirra sem eru meiddir spila sömu stöðuna, í vörninni, og það bitnar á liðinu," sagði Ramos, sem að öðru leyti vildi hrósa sínu liði fyrir frábæra endurkomu í síðari hálfleik.

„Þetta var erfitt fyrir liðið í heild í fyrri hálfleiknum en drógum mjög tennurnar úr Dönunum með því að skora tvö mörk strax í byrjun síðari hálfleiks. En þeir hlupu endalaust og voru erfiðir. Við hljótum að hrósa okkar leikmönnum sem áttu frábæran síðari hálfleik og spiluðu af miklum krafti, ekki síst eftir þennan skelfilega fyrri hálfleik. Hver leikur er 90 mínútur og ég sagði þeim í hálfleik að það væri hægt að snúa blaðinu við og bæta fyrir mistökin. Mörkin tvö komu snemma og gáfu okkur nægan tíma til að skora þriðja markið,"sagði Ramos.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka