Andriy Shevchenko Úkraínumaðurinn í liði Chelsea er enn ósáttur með stöðu sína hjá Lundúnaliðinu. Hann batt vonir við að hagur sinn myndi vænkast með tilkomu Ísraelsmannsins Avram Grant í stöðu knattspyrnustjóra í stað José Mourinho en því hefur ekki orðið að heilsa.
„Ég er ekki ánægður en hvað get ég gert? Ég legg hart að mér á æfingum á hverjum degi en mín mesta skemmtun er að spila fyrir Úkraínu. Í hvert sinn sem ég er með landsliðinu þá næ ég að hlaða batteríin og veitir ekki af eins og hlutirnir eru hjá mér,“ sagði Shevchenko við fréttamenn eftir leik Chelsea gegn Rosenborg í Meistaradeildinni í gær þar hann kom inná í síðari hálfleik.
Chelsea keypti Shevchenko frá AC Milan fyrir 30 milljónir punda og er eitt og hálft ár liðið frá því hann ritaði nafn sitt undir samninginn. Hann náði aðeins að skora 5 mörk í 36 leikjum með Chelsea á síðustu leiktíð. Forráðamenn AC Milan hafa lýst því yfir að þeir séu reiðubúnir að taka aftur við Úkraínumanninum en hvort þeir eru reiðbúnir að punga út sömu upphæð og þeir fengu fyrir hann er ekki víst.