Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United segist glaður vilja leggja enska knattspyrnusambandinu lið í því að finna nýjan þjálfara fyrir enska landsliðið en Ferguson er einn þeirra manna sem enska knattspyrnusambandið ætlar að fá álit hjá varðandi landsliðsþjálfarastöðuna.
„Ég vil reyna að leggja mitt af mörkum enda er að það mikilvægt fyrir fótboltann á Englandi að réttur maður verði ráðinn sem landsliðsþjálfari. Það er ekki létt verk að finna landsliðsþjálfara, þetta er ekki auðvelt starf og það er ekki auðvelt að velja þann rétta. Það hefur enginn hjá knattspyrnusambandinu rætt við mig enn sem komið og ég veit ekki hvort það gerist. En það er ekkert rangt hjá þeim að leita álits hjá mönnum sem eru á kafi í fótboltanum,“ segir Ferguson í samtali við fréttavef Sky.
José Mourinho hefur sterklega verið orðaður við starfið síðustu dagana en þessi fyrrum keppinautur Fergusons hætti störfum hjá Chelsea í september. Ferguson finnst þó ekki rétt að benda á einn aðila umfram annan áður en þeir sem koma til greina hafi lýst því yfir hvort þeir hafi áhuga á starfinu.
„Ef José vill starfið kemur hann að sjálfsögðu til greina. En ef Arsene Wenger væri spenntur fyrir starfinu kæmi hann til greina og ef ég segðist hafa áhuga þá kæmi ég til greina,“ sagði Ferguson.