Brasilíumaðurinn Kaká, Argentínumaðurinn Lionel Messi og Portúgalinn Cristiano Ronaldo eru eftir á lista FIFA fyrir valið á besta knattspyrnumanni ársins en kjörinu verður lýst í hófi í Zurich í Sviss þann 17. desember.
Brasilíumaðurinn Kaká fær væntanlega Gullboltann á sunnudaginn sem besti leikmaðurinn í Evrópu en hann leikur með AC Milan. Messi, félagi Eiðs Smára Guðjohnsen hjá Barcelona, er einnig líklegur enda hafa síðustu sex sem valdir hafa verið komið úr spánska boltanum. Ronaldo yrði hins vegar sá fyrsti úr enska boltanum til að verða valinn knattspyrnumaður ársins.
Hjá konunum eru þær Birgit Prinz, sem hefur sigraði síðustu þrjú árin, og Brasilíustúlkurnar Marta og Cristiane á þriggja manna listanum. Prinz leikur með Frankfurt, Cristiane með Wolfsburg og Marta leikur með Umeå í Svíþjóð.