Arsenal náði í kvöld fimm stiga forystu í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu með því að sigra Aston Villa á útivelli, 2:1. Arsenal er með 36 stig, fimm stigum meira en Chelsea sem er í öðru sæti, og á leik til góða.
Manchester United er með 30 stig og jafnmarga leiki og Arsenal en fær Fulham í heimsókn í síðasta leik umferðarinnar á mánudagskvöldið.
Craig Gardner kom Aston Villa yfir á 14. mínútu með viðstöðulausu skoti úr miðjum vítateig eftir sendingu frá John Carew, 1:0. Á 23. mínútu jafnaði Mathieu Flamini fyrir Arsenal, 1:1, með hörkuskoti utarlega úr vítateignum eftir sendingu frá Tomás Rosický.
Arsenal komst yfir, 2:1, á 36. mínútu þegar Emmanuel Adebayor skoraði með hörkuskalla eftir fyrirgjöf frá Bakary Sagna.
Engu munaði að Carew jafnaði fyrir Villa á 62. mínútu þegar hann átti hörkuskalla í þverslána á marki Arsenal en þá hafði Villa sótt linnulítið frá byrjun síðari hálfleiks. Sama sagan var allt til leiksloka, Villa sótti en Arsenal varðist og náði að halda fengnum hlut.
Aston Villa er í 7. sæti er með 27 stig eins og Liverpool og Portsmouth sem eru í 5. og 6. sæti.