„David Beckham er tilbúinn til að vera "andlit Englands" í baráttu enska knattspyrnusambandsins fyrir því að fá að halda úrslitakeppni heimsmeistaramótsins árið 2018.
Beckham hefur reynslu af slíkri vinnu því hann var í nefnd sem barðist fyrir því að Bretland fengi að halda Ólympíuleikana í London árið 2012. Það gekk eftir, hvort sem það var Beckham að þakka eður ei.
BBC segir að knattspyrnusambandið vilji fá Beckham í lið með sér og kveðst hafa heimildir fyrir því að kappinn sé tilbúinn í slaginn.
Beckham var fyrirliði enska landsliðsins frá 2000 til 2006 og lék sinn 99. landsleik í síðasta mánuði. Hann stefnir á að leika áfram með landsliðinu, enda þótt hann spili nú með LA Galaxy í Bandaríkjunum, og vonast eftir því að leika sinn 100. leik þegar Englendingar mæta Sviss í vináttulandsleik í febrúar.
Englendingar héldu úrslitakeppni HM árið 1966 og sóttu um að fá hana aftur árið 2006 en töpuðu þá í baráttu við Þjóðverja. Þeir fá væntanlega harða keppni um gestgjafahlutverkið 2018 því Ástralía, Kína, Rússland, Bandaríkin, Belgía/Holland og Mexíkó hafa öll sýnt því áhuga.
Umsóknum þarf að skila inn árið 2009 og FIFA tekur endanlega ákvörðun um hvaða þjóð hreppi hnossið árið 2011.