Beckham tilbúinn til að vera „andlit Englands" 2018

David Beckham er tilbúinn að berjast fyrir England á nýjum …
David Beckham er tilbúinn að berjast fyrir England á nýjum vettvangi. Reuters

„David Beckham er tilbúinn til að vera "andlit Englands" í baráttu enska knattspyrnusambandsins fyrir því að fá að halda úrslitakeppni heimsmeistaramótsins árið 2018.

Beckham hefur reynslu af slíkri vinnu því hann var í nefnd sem barðist fyrir því að Bretland fengi að halda Ólympíuleikana í London árið 2012. Það gekk eftir, hvort sem það var Beckham að þakka eður ei.

BBC segir að knattspyrnusambandið vilji fá Beckham í lið með sér og kveðst hafa heimildir fyrir því að kappinn sé tilbúinn í slaginn.

Beckham var fyrirliði enska landsliðsins frá 2000 til 2006 og lék sinn 99. landsleik í síðasta mánuði. Hann stefnir á að leika áfram með landsliðinu, enda þótt hann spili nú með LA Galaxy í Bandaríkjunum, og vonast eftir því að leika sinn 100. leik þegar Englendingar mæta Sviss í vináttulandsleik í febrúar.

Englendingar héldu úrslitakeppni HM árið 1966 og sóttu um að fá hana aftur árið 2006 en töpuðu þá í baráttu við Þjóðverja. Þeir fá væntanlega harða keppni um gestgjafahlutverkið 2018 því Ástralía, Kína, Rússland, Bandaríkin, Belgía/Holland og Mexíkó hafa öll sýnt því áhuga.

Umsóknum þarf að skila inn árið 2009 og FIFA tekur endanlega ákvörðun um hvaða þjóð hreppi hnossið árið 2011.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka