Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United segir að hinn 19 ára gamli Brasilíumaður, Anderson, sé besti ungi leikmaður í heimi og er sannfærður um að hann eigi eftir að verða lykilmaður hjá liðinu.
Ferguson keypti Anderson frá Porto í sumar og hefur hann leikið í þrettán leikjum United það sem af er. „Anderson er einfaldlega búinn að vera frábær. Strákurinn hefur svo sannarlega eitthvað sérstakt við sig.
Við urðum að bregðast skjótt við eftir að við fundum hann, jafnvel þó hann væri fótbrotinn og frá í fjóra til fimm mánuði. Í umsögnum um hann var okkur sagt að þarna væri á ferðinni besti ungi leikmaðurinn í heiminum. Ég vildi ekki ana að neinu og sagði „í guðannabænum, róum okkur nú aðeins!“
Ég vissi að hann hefði ákveðna hæfileika en vildi ekki setja svona merkimiða á hann. En við erum mjög ánægðir með hann og hann hefur sýnt að hann er alvöru miðvallarleikmaður. Hann getur farið í tæklingar, hann er snöggur sem elding, hugrakkur og getur sent boltann. Það sem hann á eftir að sanna fyrir mér er að hann geti skorað mörk, það er nokkuð sem Paup Scholes gerði alltaf reglulega,“ sagði Ferguson.