Sven Göran Eriksson knattspyrnustjóri Manchester City hefur meinað sínum mönnum að fylgjast með hnefaleikabardaga Ricky Hattons og Floyd Mayweather í sjónvarpinu annað kvöld. Eriksson fer þar með að dæmi kollega síns hjá Liverpool, Rafael Benítez.
City á leik gegn Tottenham á sunnudaginn og segir Eriksson það ekki koma til greina að leikmennirnir berji bardagann augum og mæti til leiks með stírurnar í augunum.
Margir af leikmönnum Manchester City þekkja vel til Hattons enda hefur haldið með Manchester City alla sína tíð og klæðist ljósbláum stuttbuxum þegar hann er í hringnum til heiðurs uppáhaldsfélagi sínu.
„Ég mun segja leikmönnum mínum að hvílast. Það munu einhverjir af aðstoðarmönnum okkar, læknir og sjúkraþjálfarar fylgjast með bardaganum en ekki leikmennirnir því við eigum mikilvægan leik á sunnudaginn,“ segir Eriksson.