Mikil spenna er fyrir viðureign Marseille og Liverpool sem mætast í Meistaradeildinni á Stade Velodrome vellinum í Marseille annað kvöld. Öll liðin í riðlinum eiga möguleika á að komast áfram en fyrir lokaumferðina er Porto með 8 stig, Marseille og Liverpool 7 og Besiktas 6.
Með sigri tryggir Liverpool sér farseðilinn í 16-liða úrslitin og jafntefli dugar fari svo að Besiktas beri sigurorð af Porto í Portúgal. Þá yrðu Liverpool, Porto og Marseille öll með 8 stig en Liverpool stæði best að vígi í innbyrðisviðureignum og færi áfram með Besiktas.
„Við höfum burði til að vinna Marseille og komast áfram. Ég er bjartsýnn. Við erum orðnir vanir því að spila úrslitaleiki og það kemur okkur til góða,“ segir Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool.
Marseille hefur verið í fínu formi síðustu vikurnar undir stjórn Belgans Eric Gerets en liðið vann Mónakó um helgina, 2:0, og hefur unnið fimm leiki í röð.