Ráðning Capellos staðfest með fyrirvara

Fabio Capello er í þann veginn að taka við enska …
Fabio Capello er í þann veginn að taka við enska landsliðinu. AP

Stjórn enska knattspyrnusambandsins hefur staðfest ráðningu Fabios Capellos sem landsliðsþjálfara Englands, með fyrirvara um að gengið  verði frá nokkrum lausum endum varðandi hana.

Hann mun skrifa undir samning til hálfs fimmta árs og fá um 500 milljónir króna í árslaun. „Stjörnin hefur samþykkt ráðningu hans sem þjálfara, með fyrirvara um atriði sem ekki eru frágengin. Viðræður um þau munu halda áfram en það eru engin vandamál á ferðinni og við munum halda áfram og leiða þetta mál til farsælla lykta," sagði talsmaður sambandsins við BBC.

BBC segir að eitt af þeim atriðum sem eftir sé að ganga frá sé sú ósk Capellos að Franco Baldini verði ráðinn framkvæmdastjóri landsliðsins. Baldini sagði hinsvegar sjálfur við BBC að ekki myndi stranda á því atriði. „Capello verður þjálfari Englands, hvort sem ég verð ráðinn til sambandsins eða ekki. Mér skilst að sambandið hafi fallist á að ég taki þetta starf að mér. Ef ekki, tel ég að Capello verði samt ráðinn en hann kannski ekki alveg eins sáttur," sagði Baldini.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert