West Ham skoðar byggingu nýs leikvangs

Björgólfur Guðmundsson, nýr stjórnarformaður West Ham.
Björgólfur Guðmundsson, nýr stjórnarformaður West Ham. mbl.is/Þorkell

Breska knattspyrnufélagið West Ham hefur sent frá sér tilkynningu þar sem staðfestar eru þær fréttir, að Eggert Magnússon lætur af störfum sem stjórnarformaður félagsins og Björgólfur Guðmundsson, sem kaupir 5% hlut Eggerts í félaginu, verður stjórnarformaður.

Breytingarnar voru samþykktar á hluthafafundi í WH Holding, eignarhaldsfélagi West Ham United Plc. Björgólfur er eftir breytingarnar eini eigandi félagsins.

Fram kemur í tilkynningunni, að Björgólfur muni fjárfesta  30,5 milljónir punda, jafnvirði  3,8 milljarða króna, í félaginu til að styrkja fjárhagsstöðu þess.

WH Holding og West Ham United Plc. munu mynda sameiginlega stjórn sem hefur umsjón með allri starfsemi félagsins. Í nýju stjórninni sitja Björgólfur Guðmundsson, stjórnarformaður, Ásgeir Friðgeirsson, varaformaður, Þór Kristjánsson, Mike Lee, Guðmundur Oddsson, Scott Duxbury, sem er forstjóri West Ham og Nick Igoe, fjármálastjóri.

Á fyrsta fundi sínum í dag ákvað stjórninn að kanna möguleika á að reisa nýjan 60 þúsund sæta leikvang fyrir liðið. Haft er eftir Björgólfi, að verið sé að leggja traustan grundvöll undir framtíð félagsins.

„Hlutverk mitt sem eiganda er að leggja línurnar fyrir framtíðina og skapa réttar aðstæður svo Alan Curbishley (knattspyrnusjóri) og liðið geti náð árangri," segir Björgólfur í tilkynningunni. 

Eggert Magnússon segir í tilkynningunni, að Björgólfur hafi alltaf stutt hann í starfi stjórnarformanns og hann sé ánægður með að Björgólfur taki nú við því starfi. Segist Eggert óska félaginu alls hins besta og hann muni sýna því stuðningi þegar hann geti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert