Cesc Fabregas verður hugsanlega með Arsenal gegn Chelsea á sunnudaginn en Spánverjinn snjalli hefur ekkert verið með síðan hann meiddist í leiknum gegn Sevilla í Meistaradeildinni í lok nóvember.
Fabregas æfði með Arsenal-liðinu í dag og er talinn ágætur möguleiki á að hann verði klár í slaginn í stórleiknum við Chelsea sem fram fer á Emirates Stadium. Frakkinn Mathieu Flamini og Aleksandr Hleb eru sömuleiðis að skríða saman eftir meiðsli og verða að öllum líkindum með eins og Robin van Persie sem lék sinn fyrsta leik í tvo mánuði gegn Steaua Búkarest í vikunni.
Chelsea verður án Didier Drogba og Ricardo Carvalho sem báðir eru meiddir og Michael Essien tekur út leikbann.