Fabio Capello verður í dag formlega kynntur til sögunnar sem nýr landsliðsþjálfari Englands í knattspyrnu. Hann segir að enska liðið sé mjög sterkt en skorti sjálfstraust.
„Liðið hefur misst aðeins af seiglunni og ákveðninni sem einkenndi það fyrir nokkrum árum. Þetta er stór og erfið áskorun fyrir mig," sagði Capello í kveðjuþætti sínum á ítölsku sjónvarpsstöðinni Rai Due þar sem hann hefur starfað síðan hann hætti að þjálfa Real Madrid í vor.
„Enska liðið þarf að vinna upp sjálfstraustið á ný. Ég sá það spila gegn Rússlandi og það vantaði þennan mikilvæga þátt. Þetta er lið sem þarf að finna rétta braut á ný og það er mitt hlutverk," sagði Capello sem ætlar að hefja strax nám í ensku.
„Frá og með morgundeginum mun ég byrja að bæta mig í enskunni. Lykilatriðið er að komast inní andrúmsloftið í Englandi. Það er allt annar heimur, dagblöðin fylgjast með hverju fótmáli landsliðsþjálfarans, það er viðkvæm staða og ég verð að vera mjög varkár. Aðalmálið er að geta einbeitt sér að starfinu og komið enska landsliðinu þangað sem það á heima. Það yrði toppurinn á öllu að verða heimsmeistari og setjast síðan í helgan stein," sagði Capello, sem er 61 árs og hefur þegar lýst því yfir að þetta sé hans síðasta starf á ferlinum.
Capello tekur til starfa 7. janúar og fyrsti leikur hans er vináttulandsleikur gegn Sviss á Wembley 6. febrúar. Enska liðið komst ekki í úrslitakeppni EM og Capello stýrir því liðinu ekki í mótsleik fyrr en í september þegar undankeppni HM hefst.