Cole á refsingu yfir höfði sér

Ashley Cole í baráttu við Emmanuel Adebayor í leiknum í …
Ashley Cole í baráttu við Emmanuel Adebayor í leiknum í gær. AP

Ashley Cole, bakvörður Chelsea og enska landsliðsins, má búast við refsingu af hálfu enska knattspyrnusambandsins þar sem hann sendi stuðningsmönnum Arsenal óviðeigandi bendingar eftir leik liðanna í gær.

Cole er uppalinn hjá Arsenal og lék með liðinu í átta ár en stuðningsmenn félagsins eru afar ósáttir við hvernig hann skildi við félagið og gekk til liðs við Chelsea á síðasta ári. Þeir bauluðu á hann í hvert skipti sem hann fékk boltann í gær.

Avram Grant, knattspyrnustjóri Chelsea, sagði að Cole hefði líka fengið að kenna á því hjá fyrrum samherjum sínum í Arsenal. „Þeir spiluðu fast á móti honum og brutu á honum hvað eftir annað en hann er sterkur karakter og lét það ekki á sig fá. Mótlætið braut hann ekki heldur hvatti hann áfram og hann lék vel," sagði Grant.

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sem ól Cole upp sem leikmann, hvatti stuðningsmenn félagsins fyrir leikinn til að sýna honum  virðingu en þeir hlustuðu ekki á stjórann að þessu sinni.

„Cole lék vel fyrir Arsenal og verðskuldar virðingu. Maður ætlast til þess að stuðningsmenn sýni fyrrum leikmönnum félagsins virðingu. Sumir leikmenn sem snúa aftur hingað fá góðar viðtökur en þetta fer eftir kringumstæðum. Fólk var ósátt við hvernig Ashley fór en í mínum augum skipti það litlu máli. Hann ólst hér upp og stóð sig vel og við vildum að hann fengi góðar móttökur," sagði Wenger.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert