Benítez: Dómarinn átti að grípa inní

Peter Crouch gengur af velli eftir brottvísunina og Rafael Benítez …
Peter Crouch gengur af velli eftir brottvísunina og Rafael Benítez er ekki ánægður. AP

Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool segir að ef dómarinn hefði gripið inní leikinn á réttum tíma hefði Peter Crouch aldrei fengið rauða spjaldið í leiknum við Chelsea í deildabikarnum í gærkvöld.

Crouch var rekinn af velli fyrir að brjóta á Mikel John Obi í síðari hálfleik. Staðan þá var 1:0 fyrir Chelsea, sem innsiglaði sigurinn í lokin, 2:0, og er komið í undanúrslit keppninnar.

„Þessi dómur gerði út um leikinn en Mikel var tvisvar búinn að reyna að sparka í Crouch. Þessvegna missti hann stjórn á sér. Ef dómarinn hefði brugðist við á réttum tíma, hefði þessi brottrekstur aldrei átt sér stað.

Það var vissulega hægt að sýna rauða spjaldið fyrir þetta brot en ég hef séð verri tæklingar en þetta, sem stundum kalla á gult spjald, stundum ekki á neitt. Ég er vonsvikinn yfir tapinu en við lékum mjög vel á meðan við höfðum fullskipað lið. Við spiluðum vel og sköpuðum okkur góð færi en þeir eru með mjög góðan markvörð," sagði Benítez.

Avram Grant knattspyrnustjóri Chelsea sagði að rauða spjaldið hefði verið verðskuldað. "Kannski reiddist Rafa yfir þessu en í fyrsta lagi var þetta ljót tækling, og í öðru lagi hafði verið brotið 7-8 sinnum á Mikel í fyrri hálfleiknum. Crouch þurfti ekki að gera þetta, atvikið átti sér stað á miðjum vellinum. Aðalmálið er að vernda leikmenn frá ljótum brotum, enda erum við nýbúnir að missa John Terry úr okkar liði næstu sex vikurnar," sagði Grant.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka