Benítez tilbúinn að semja að nýju

Rafael Benítez er ánægður með gang mála á Anfield.
Rafael Benítez er ánægður með gang mála á Anfield. Reuters

Rafael Benítez hefur lýst sig reiðubúinn til að skrifa undir nýja samning sem knattspyrnustjóri Liverpool og segir að allt sé í góðu á milli sín og hinna bandarísku eigenda félagsins.

Nokkur titringur hefur verið í kringum Benítez undanfarnar vikur, eftir að hann gagnrýndi þá Gillett og Hicks fyrir skilningsleysi þeirra á þörfum fyrir að huga strax að leikmannakaupum í janúar. Að loknum fundahöldum með þeim um síðustu helgi segir Benítez að allt sé fallið í ljúfa löð.

„Ég er afar rólegur yfir stöðu minni, vil standa við minn samning og skrifa undir nýjan ef mögulegt er. Fjölskylda mín hefur aðlagast vel lífinu hér í Englandi og sú virðing og stuðningur sem fólkið hér sýnir mér er með ólíkindum," sagði Benítez við dagblaðið Sport.

„Við erum komnir í tæri við enska meistaratitilinn, erum með átta stigum meira en á sama tíma í fyrra, og erum komnir áfram í Meistaradeildinni. Við erum í fínni stöðu en keppinautar okkur halda líka áfram að fjárfesta, þróast og styrkjast," sagði Benítez og vildi meina að deilur sínar við Gillett og Hicks hefðu verið orðum auknar.

„Það voru dálitlar ýkjur í gangi. Ameríkanarnir vilja félaginu allt það besta og sama er að segja um mig. Þeir vilja  fyrst og fremst setjast niður og ræða málin því það er smá munur á tungumálinu og fjarlægðin er mikil. Það þarf að bæta samskiptin. Ég er rólegur og viss um að allt verður með friði og spekt og við náum árangri.

Um 40 þúsund undirskriftir á netinu hvöttu mig til að halda áfram að stýra Liverpool. Margar þeirra komu frá Ástralíu og Asíu og fjölmargir stuðningsmenn félagsins um allan heim styðja við bakið á þjálfara sem hefur unnið stóra titla fyrir félagið," sagði Rafael Benítez.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert