Larsson aftur á Old Trafford?

Henrik Larsson, til vinstri, í leik með Helsingborg í UEFA-bikarnum.
Henrik Larsson, til vinstri, í leik með Helsingborg í UEFA-bikarnum. Reuters

Enska dagblaðið Daily Express fullyrðir í dag að Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, vilji fá Henrik Larsson lánaðan að nýju frá sænska félaginu Helsingborg.

Larsson, sem er orðinn 36 ára gamall, lék með United sem lánsmaður frá 1. janúar til 12. mars á þessu ári en hann hafði áður snúið heim til Svíþjóðar eftir langan og glæsilegan feril erlendis og gengið til liðs við Helsingborg. Hann átti góðu gengi að fagna á Old Trafford og er sagður í miklum metum hjá Ferguson, sem vilji hafa hann til taks til að leysa Wayne Rooney og Carlos Tévez af í framlínu liðsins.

Fyrir skömmu skýrði sænska blaðið Expressen frá því að í ágúst hefði Ferguson boðið Larsson eins árs samning en Svíinn hefði neitað. Þær fregnir voru bornar til baka af forráðamönnum Helsingborg.

Larsson hefur ekki gefið út hvort hann haldi áfram eða leggi skóna á hilluna. Helsingborg er komið í 32-liða úrslit UEFA-bikarsins en sem kunnugt er leikur Ólafur Ingi Skúlason með liðinu og Larsson lagði einmitt upp mark fyrir hann í keppninni á dögunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert