Ronaldo tryggði United þrjú stig

Leikmenn Manchester United fagna marki Ronaldos gegn Everton í dag.
Leikmenn Manchester United fagna marki Ronaldos gegn Everton í dag. Reuters

Cristiano Ronaldo tryggði Englandsmeisturum Manchester United sigur á Everton á Old Trafford í dag. Ronaldo skoraði bæði mörk United og sigurmarkið úr vítaspyrnu fimm mínútum fyrir leikslok. Manchester United er nú stigi á eftir Arsenal í öðru sæti deildarinnar.

Howard Webb flautar til leiksloka á Old Trafford. Heimamenn leggja Everton, 2:1. Fyrsta tap Everton í 14 leikjum staðreynd. Textalýsing frá leiknum er hér að neðan.

2:1 (85.) Cristiano Ronaldo kemur United yfir með marki úr vítaspyrnu sem dæmd var þegar Ryan Giggs var felldur af Pineaar. Ronaldo skoraði af miklu öruyggi, annað mark sitt í leiknum og 11. í úrvalsdeildinni og er hann þar með orðinn markahæstur.

Alex Ferguson gerir sína þriðju skiptingu. Anderson fer af velli og Skotinn Darren Fletcher tekur stöðu hans. Everton gerir líka breytingu. Markaskorarinn Tim Cahill fer af velli og inná er kominn Victor Anichebe.

Danski harðjaxlinn Thomas Gravesen er kominn inná í lið Everton fyrir Nígeríumanninn Yakubu.

74. Wayne Rooney með þrumufleyg eftir vel útfærða aukaspyrnu. Boltinn sleikir markslánna og staðan enn jöfn, 1:1.

70. Louis Saha á að blása meiri lífi í sókn Manchester United en hann kemur inná fyrir Michael Carrick.

55. Tim Howard markvörður Everton gerir vel að verja gott skot Carlosar Tevez úr vítateignum. Eftir góða byrjun Everton í seinni hálfleik hafa meistararnir nú tekið öll völd á vellinum.

Alex Ferguson gerir eina breytingu á liði sínu í hálfleik. John O'Shea kemur inná fyrir Danny Simpson.

Howard Webb hefur flautað til leikhlés á Old Trafford. Staðan er 1:1. Cristiano Ronaldo kom United yfir á 22. mínútu en Tim Cahill jafnaði fimm mínútum síðar. Fimm leikmenn eru komnir með gul spjöld, Rooney, Evra og Anderson hjá United og Cahill og Hibbert hjá Everton.

44. Ronaldo skýtur framhjá eftir glæsilega skyndisókn þar sem Giggs og Ronaldo spóla sig í gegnum vörn Everton.

Manchester United hefur þyngt mjög sókn sína og eiga liðsmenn Everton nú í vök að verast.

32. Lescott bjargar með skalla á marklínu vippuskoti frá Wayne Rooney.

Rúmur hálftími er liðin af leiknum. Staðan er 1:1 og leikurinn í miklu jafnvægi. Þó nokkur pirringur er í leikmönnum beggja liða og fjórum sinnum hefur Howard Webb þurft að lyfta gula spjaldinu.

1:1 (27.) Ástralinn Tim Cahill jafnar metin fyrir Everton með glæsilegri kollspyrnu eftir fyrirgjöf frá Pineaar.

1:0 (22.) Cristiano Ronaldo skorar með glæsilegu vinstri fótarskoti rétt utan vítateigsins. 15. mark Portúgalans á leiktíðinni þar af 10. í úrvalsdeildinni og er hann markahæstur ásamt Nicolas Anelka og Emmanuel Adebayor.

Howard Webb hefur nóg að gera með að lyfta spjöldum. Tim Cahill og Tony Hibbert leikmenn Everton eru áminntir með mínútu millibili og þar með hafa fjórir leikmenn fengið gult spjald á fyrsta stundarfjórðungnum.

10. Carlos Tevez fær fyrsta færið í leiknum en skot hans af stuttu færi fer rétt framhjá.

8. Patrice Evra fær að líta gula spjaldið og þar með eru tveir leikmenn United komnir með spjöld.

4. Wayne Rooney er kominn í svörtu bókina hjá Howard Webb dómara fyrir ljótt brot á Tim Cahill.

Lið Man Utd: Kuszszak, Simpson, Brown, Vidic, Evra, Ronaldo, Evra, Anderson, Carrick, Giggs, Rooney, Tevez. Varamenn: Heaton, Saha, Nani, O'Shea, Fletcher.

Lið Everton: Howard, Hibbert, Lescott, Stubbs, Pineaar, Carlsley, Yobo, Neville, Cahill, Johnson, Yakubu. Varamenn: Wessels, Gravesen, McFadden, Valente, Anichebe.

Fyrir leikinn:

*Manchester United hefur unnið fleiri leiki gegn Everton í úrvalsdeildinni en nokkru öðru liði og Everton hefur tapað fleiri leiki gegn United en nokkru öðru í úrvalsdeildinni.

*Manchester United hefur unnið 17 af síðustu 21 leikjum sínum í öllum keppnum og hefur aðeins tapað einum af síðustu 14 í úrvalsdeildinni.

*Manchester United hefur fengið fæst mörk á sig af öllum liðum eða 8 í 17 leikjum. Liðið hefur haldið hreinu í 9 leikjum.

*Manchester United hefur ekki tapað leik þegar það hefur skorað og er ósigrað á heimavelli á tímabilinu.

*Manchester United hafði betur, 1:0, í fyrri viðureign liðanna á tímabilinu á Goodison Park þann 15. september. Nemanja Vidic skoraði sigurmarkið á 83. mínútu.

*Everton er taplaust í síðustu 13 leikjum sínum og hefur ekki tapað síðustu 7 leikjum sínum í úrvalsdeildinni. Liðið tapaði síðast fyrir Liverpool, 2:1, 20. október.

* Everton hefur skorað 31 mark í leikjum sínum í deildinni eins og Livrpool. Aðeins Arsenal hefur skorað fleiri, 36.

*Everton lagði Manchester United síðast í apríl 2005 þegar Duncan Ferguson skoraði eina mark leiksins.

*Everton hefur aðeins einu sinni tekist að leggja United á Old Trafford. Það var árið 1992. Peter Beardsley, Robert Warzycha og Mo Johnston skoruðu mörkin í sigurleiknum.

Wayne Rooney leikur í fremstu víglínu United gegn sínum gömlu …
Wayne Rooney leikur í fremstu víglínu United gegn sínum gömlu félögum í Everton. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert