Eftir frábæra frammistöðu hjá Manuel Almunia í marki Arsenal gegn Tottenham á laugardaginn hefur þeim fjölgað enn sem vilja fá Spánverjann í mark enska landsliðsins þegar hann verður löglegur þar á næsta ári.
Englendingar hafa verið í hálfgerðri markmannskrísu undanfarin ár en hvorki Paul Robinson né aðrir hafa náð að gulltryggja sér markmannsstöðuna á sannfærandi hátt. Almunia hefur aldrei verið kallaður í landsliðshóp Spánar og á næsta ári hefur hann verið búsettur í Englandi nægilega lengi til að vera gjaldgengur með landsliði Englands.
„Spánverjar hafa aldrei nokkurn tíma sýnt mér áhuga og ef aðrir gera það mun ég skoða stöðuna mjög vel, og taka þá ákvörðun sem hentar mér best. Ég verð að meta það á þeirri stundu, skoða hvaða markverði England hefur og hvaða markverði Spánn hefur, og ákveða mig. Það yrði stór og mikil ákvörðun en ég er tilbúinn að taka hana með mjög skömmum fyrirvara, jafnvel á tveimur dögum," sagði Almunia við BBC og kvaðst afar ánægður með þær viðtökur sem hann hefur fengið hjá stuðningsmönnum Arsenal.
„Ef maður sýnir eitthvað, taka þeir ástfóstri við þig, sem er frábært. Þannig gerist þetta ekki á Spáni. Englendingar eru ástríðufyllri og auðmýkri. Þegar eitthvað er gert fyrir þá, launa þeir það tvöfalt, og fyrir fótboltamann er það ómetanlegt," sagði Almunia, sem hefur verið varamarkvörður frá því hann kom til Arsenal, allt þar til hann sló Jens Lehmann, landsliðsmarkvörð Þýskalands, útúr liðinu á yfirstandandi tímabili.
Almunia er þrítugur að aldri og kemur frá Pamplona frá Spáni. Þar hóf hann ferilinn með Osasuna og spilaði með B-liði félagsins í tvö ár en fékk ekki tækifæri með aðalliðinu. Síðan spilaði hann eitt tímabil með Sabadell en var síðan í herbúðum Celta Vigo í þrjú ár, aftur án þess að fá að spila með aðalliðinu. Á þeim tíma var hann þrívegis lánaður, til Eibar, Recreativo Huelva og Albacete. Loks keypti Arsenal hann sumarið 2004.
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sagði við The Sun um jólin að Fabio Capello, nýráðinn landsliðsþjálfari Englands, ætti að líta á Almunia sem vænlegan kost í markið hjá sér.
„Ég mæli eindregið með því. Almunia kom hingað án þess að vera með neina ferilskrá og þurfti því að sýna sig og sanna með sinni frammistöðu. Það var ekki auðvelt því hann skorti reynslu. Ég vissi að hann væri góður, og eina leiðin til að hann gæti orðið markvörður Arsenal var að gefa honum tækifæri til að spila. Hann hafði aldrei spilað með stóru liði áður og gerði sín mistök en hefur unnið sér inn sjálfstraust og yfirvegun. Hann er góður markvörður undir álagi," sagði Wenger.