Arsenal er á ný í efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir góðan útisigur á Everton, 4:1, í fjörugum leik þar sem tvö rauð spjöld litu dagsins ljós.
Arsenal er nú með 47 stig eftir 20 umferðir en Manchester United, sem tapaði fyrir West Ham, 2:1, fyrr í dag er með 45 stig.
Everton náði forystunni á 19. mínútu þegar Aiyegbeni Yakubu skallaði boltann í mark Arsenal eftir hornspyrnu en Tim Cahill virtist reyndar snerta boltann í nánast sömu andrá og Yakubu.
Arsenal fékk óskabyrjun í síðari hálfleik því á 47. mínútu fékk Eduardo langa sendingu fram frá Gael Clichy og skoraði af öryggi frá vítapunkti, 1:1.
Og Eduardo hinn króatíski var aftur á ferð á 58. mínútu. Hann fékk skallasendingu frá Nicklas Bendtner, sneri laglega á tvo varnarmenn Everton og skoraði af miklu öryggi, 1:2.
Arsenal varð fyrir áfalli á 74. mínútu þegar danski sóknarmaðurinn Nicklas Bendtner fékk sitt annað gula spjald og var þar með rekinn af velli.
En á 78. mínútu urðu Evertonmönnum á hrikaleg mistök. Misskilningur á milli Tims Howards markvarðar og Josephs Yobo, varnarmanns, varð til þess að Emmanuel Adebayor, nýkominn inná fyrir Eduardo, hirti af þeim boltann og sendi hann í tómt markið, 1:3.
Á 84. mínútu fór rauða spjaldið aftur á loft. Cesc Fabregas fékk þá högg í andlitið frá Mikel Arteta, landa sínum frá Spáni, þegar þeir börðust um boltann. Um óviljaverk virtist að ræða en dómarinn sýndi Arteta umsvifalaust rauða spjaldið.
Tomás Rosický, nýkominn inná sem varamaður, innsiglaði svo sigur Arsenal á þriðju mínútu í uppbótartíma með föstu skoti rétt innan vítateigs eftir sendingu frá Abou Diaby, 1:4.
Lið Everton: Howard - Hibbert, Lescott, Yobo, Neville - Arteta, Jagielka, Cahill, Carsley, Pienaar - Yakubu.
Varamenn: Vaughan, Johnson, Anichebe, Valente, Wessels.
Lið Arsenal: Almunia - Sagna, Gallas, Toure, Clichy - Diaby, Fabregas, Flamini, Hleb - Bendtner, Eduardo.
Varamenn: Adebayor, Rosický, Diarra, Senderos, Lehmann.