Peter Crouch, enski landsliðsmiðherjinn hjá Liverpool, segir að af sinni hálfu komi ekki til greina að yfirgefa félagið í janúar. Hann hefur ekki náð að festa sig í sessi í byrjunarliðinu og hefur verið orðaður við önnur félög að undanförnu.
M.a. hafa enskir fjölmiðlar sagt að Crouch kunni að vera á leið til Portsmouth í skiptum fyrir miðjumanninn snjalla Sulley Muntari. Crouch er í harðri baráttu við Fernando Torres, Dirk Kuyt og Andriy Voronin um sæti í framlínunni hjá Liverpool og þarf oftast að sætta sig við að sitja á varamannabekknum og spila hluta úr leikjunum.
„Ef ég fer héðan, liggur leiðin aðeins niður á við. Maður vill spila fyrir félag eins og Liverpool eins lengi og mögulegt er. Ég hef ekki verið eins mikið með og ég hefði viljað en það fylgir því að vera í harðri samkeppni hjá félagi í þessum styrkleikaflokki. Við eigum spennandi tíma framundan og ég ætla mér að vera um kyrrt og njóta þeirra," sagði Crouch við tímarit Liverpool-félagsins.
Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, er heldur ekki á því að láta nokkurn mann úr sínum hópi fara í janúar. „Við ætlum ekki að selja neinn því við erum með í bikarkeppninni og Meistaradeild Evrópu, auk þess sem við ætlum okkur að vera í toppbaráttu úrvalsdeildarinnar. Maður veit aldrei hversu mikið verður um meiðsli og það er því nauðsynlegt að reyna að halda saman þeim hópi sem við höfum yfir að ráða, enda erum við ánægðir með hann," sagði Spánverjinn.
Hann sagði að það væri eðlilegt að einhverjir myndu ókyrrast þar sem þeir hefðu ekki spilað mikið, en Benítez hefur hvatt þá til að vera rólegir til loka tímabilsins. „Ef einhver vill fara, verður hann að gera sér grein fyrir því að við þurfum á öllum okkar mönnum að halda. Staðan er breytileg en á sumrin er auðveldara að gera breytingar á hópnum því þá er meiri tími til undirbúnings," sagði Benítez.