Átta leikir fara fram í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag og þar eiga toppliðin Manchester United og Arsenal erfiða útileiki fyrir höndum.
Sjö leikjanna hefjast kl. 15.00 og sá áttundi, viðureign Everton og Arsenal, byrjar kl. 17.15. Þeir sem hefjast kl. 15 eru eftirtaldir:
Birmingham - Fulham
Chelsea - Newcastle
Portsmouth - Middlesbrough
Sunderland - Bolton
Tottenham - Reading
West Ham - Manchester United
Wigan - Aston Villa
Manchester United sækir West Ham heim á Upton Park og þar fær Carlos Tévez væntanlega góðar viðtökur hjá stuðningsmönnum West Ham eftir frábæra frammistöðu með liðinu síðasta vetur.
Arsenal á afar erfitt verkefni fyrir höndum á Goodison Park gegn liði Everton sem hefur aðeins tapað einu sinni í síðustu 16 leikjum, og það var slysalegt tap gegn Manchester United á Old Trafford.
Manchester United er líklegra en Arsenal til að sigra á útivelli að þessu sinni, ekki síst vegna þess að West Ham hefur gengið mun verr á heimavelli en útivelli á þessu tímabili. United er með eins stigs forystu á Arsenal á toppi deildarinnar og á því möguleika á að auka hana í allt að fjögur stig.
Hermann Hreiðarsson leikur væntanlega með Portsmouth gegn Middlesbrough og Ívar Ingimarsson með Reading gegn Tottenham. Brynjar Björn Gunnarsson hjá Reading er í banni, Heiðar Helguson hjá Bolton er ekki kominn af stað eftir langvarandi meiðsli og Bjarni Þór Viðarsson er ekki í 18 manna hópi Everton.