West Ham sigraði Manchester United, 2:1, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag og United tapaði þar með sínum þriðja leik á tímabilinu. Ívar Ingimarsson skoraði fyrir Reading sem tapaði, 6:4, fyrir Tottenham í ótrúlegum leik á White Hart Lane í London.
Manchester United er áfram efst í deildinni með 45 stig en Arsenal sem sækir Everton heim kl. 17.15, er í öðru sæti með 44 stig og getur því komist í toppsætið á nýjan leik. Chelsea lagði Newcastle, 2:1, og er með 41 stig í þriðja sætinu.
West Ham - Manchester United 2:1 Leik lokið
Stuðningsmenn West Ham fögnuðu Carlos Tévez, sóknarmanni Man.Utd, fyrir leikinn enda tryggði hann þeim áframhaldandi sæti í deildinni í lok síðasta tímabils.
West Ham fékk tvöfalt dauðafæri á 8. mínútu. Hayden Mullins skaut í þverslá af stuttu færi, Mark Noble fékk boltann fyrir opnu marki en skaut yfir það!
Cristiano Ronaldo kom Man.Utd yfir á 14. mínútu með skalla eftir sendingu frá Ryan Giggs. West Ham var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en Ronaldo nýtti eina færi meistaranna.
Manchester United fékk vítaspyrnu á 67. mínútu þegar Jonathan Spector handlék boltann. Ronaldo tók spyrnuna en skaut framhjá marki West Ham!
West Ham nýtti sér það því Anton Ferdinand jafnaði með skalla eftir hornspyrnu, 1:1, á 77. mínútu. Á 82. mínútu skoraði svo Matthew Upson, 2:1, með glæsilegum og óverjandi skalla fyrir West Ham.
Lið West Ham: Green - Neill, Upson, McCartney, Spector - Ljungberg, Mullins, Noble, Parker, Solano - Cole.
Varamenn: Camara, Ashton, Pantsil, Ferdinand, Wright.
Lið Man.Utd: Kuszczak - Brown, Ferdinand, Vidic, Evra - Ronaldo, Hargreaves, Fletcher, Giggs - Saha, Tévez.
Tottenham - Reading 6:4 Leik lokið
Dimitar Berbatov kom Tottenham yfir á 7. mínútu eftir sendingu frá Robbie Keane en Kalifa Cissé jafnaði fyrir Reading á 16. mínútu eftir fyrirgjöf frá Nicky Shorey.
Ívar Ingimarsson kom síðan Reading yfir, 2:1, á 52. mínútu með skalla eftir hornspyrnu frá Shorey. Berbatov var aftur á ferð á 63. mínútu og jafnaði fyrir Tottenham, 2:2.
Dave Kitson svaraði fyrir Reading á 69. mínútu, 3:2, enn eftir sendingu frá Shorey, en Berbatov svaraði á ný fyrir Tottenham með sínu þriðja marki, 3:3, á 72. mínútu.
Dave Kitson skoraði aftur og kom Reading í 4:3 á 74. mínútu, Steed Malbranque jafnaði fyrir Tottenham, 4:4, 80 sekúndum síðar og Jermaine Defoe kom Tottenham yfir, 5:4, á 79. mínútu.
Dimitar Berbatov gerði sitt fjórða mark og kom Tottenham í 6:4 í þessum ótrúlega leik á 83. mínútu.
Ívar var í byrjunarliði Reading en Brynjar Björn Gunnarsson er í leikbanni.
Portsmouth - Middlesbrough 0:1 Leik lokið
Tuncay kom Middlesbrough yfir á 20. mínútu og þar við sat. Portsmouth náði ekki að skora í sjötta heimaleiknum í röð.
Hermann Hreiðarsson var í byrjunarliði Portsmouth en var skipt af velli í hálfleik.
Chelsea - Newcastle 2:1 Leik lokið
Michael Essien kom Chelsea yfir á 28. mínútu en Nicky Butt jafnaði fyrir Newcastle á 55. mínútu. Salomon Kalou kom Chelsea yfir á ný á 85. mínútu.
Birmingham - Fulham 1:1 Leik lokið
Carlos Bocanegra kom Fulham yfir á 8. mínútu en Sebastian Larsson jafnaði fyrir Birmingham, 1:1, á 55. mínútu.
Sunderland - Bolton 3:1 Leik lokið
Kieran Richardson kom Sunderland yfir á 13. mínútu og Kenwyne Jones bætti við marki á 32. mínútu, 2:0. El Hadji Diouf minnkaði muninn fyrir Bolton í 2:1 á 41. mínútu. Daryl Murphy innsiglaði sigur Sunderland í lokin, 3:1.
Wigan - Aston Villa 1:2 Leik lokið
Titus Bramble kom Wigan yfir á 28. mínútu en Curtis Davies jafnaði fyrir Aston Villa á 55. mínútu og Gabriel Agbonlahor kom Villa yfir á 70. mínútu.