Ferguson varar sína menn við

Alex Ferguson horfir á sína menn tapa gegn West Ham …
Alex Ferguson horfir á sína menn tapa gegn West Ham í gær. Reuters

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur varað sína menn við og tilkynnt þeim að ef einhverjir sverti nafn félagsins með framkomu sinni, eigi þeir ekki framtíð fyrir sér á Old Trafford.

Þetta er í fyrsta skipti sem Ferguson segir eitthvað um agamál eftir að einn leikmanna liðsins, hinn 19 ára gamli Jonny Evans, var sakaður um nauðgun eftir jólaveislu félagsins rétt fyrir jólin.

„Fótboltinn hefur breyst en menn mega ekki missa stjórn á sér. Þegar við sjáum merki um slíkt hér hjá Manchester United, er tímabært að viðkomandi hverfi á braut. Þetta félag byggist á samheldninni og þegar einhver ógnar henni, verður að gera breytingar," sagði Ferguson á vef félagsins.

Hann gagnrýndi einnig framkomu leikmanna og tilhneigingu þeirra til að haga sér eins og stórstjörnur. „Það sem fer mest í taugarnar á mér hjá sumum fótboltamönnum í dag er þegar einstaklingarnir baða sig í frægðinni. Þeir skora mörk og hrinda samherjunum frá svo þeir njóti sjálfir athyglinnar og geti sýnt sig fyrir stuðningsmönnunum. Þeir reyna líka að vekja athygli á sér með hringjum í eyrum og tattóveringum á líkamanum. Þeir fara ekki á litlu og hlýlegu veitingastaðina, þeir fara á stóru og áberandi staðina þar sem allir sjá þá og taka eftir þeim. Það er erfitt að stýra þessu," sagði Ferguson, sem verður 66 ára gamall á morgun, gamlársdag.

Hann íhugar alls ekki að hætta störfum. „Engan veginn, það er ekki á dagskránni hjá mér að draga mig í hlé. Það býr meira í þeim leikmannahópi sem ég hef nú til umráða en í nokkrum sem ég hef áður haft hjá félaginu. Áhuginn er gríðarlegur, liðsandinn er frábær og það er mikill kraftur í öllu. Við erum í slag um þrjá titla og við erum tilbúnir í allt," sagði Ferguson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert