Manchester City og Liverpool skildu jöfn, 0:0, í síðasta leik ársins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu sem fram fór á City of Manchester leikvanginum í dag.
Liverpool er áfram í fjórða sæti, nú með 37 stig eftir 19 leiki en City er með 36 stig eftir 20 leiki í fimmta sætinu. Manchester City er áfram ósigrað á heimavelli, liðið vann fyrstu níu leiki sína þar en hefur nú gert tvö jafntefli í röð.
Ekkert var um dauðafæri í fyrri hálfleiknum og staðan að honum loknum 0:0.
Liverpool var hársbreidd frá því að skora á 86. mínútu þegar Joe Hart varði skalla frá Dirk Kuyt á glæsilegan hátt og Richard Dunne bjargaði í kjölfarið naumlega á marklínu Manchester City. Liverpool hélt uppi stórsókn að marki City á síðustu mínútunum en heimamönnum tókst að halda út með sannkallaðri nauðvörn.
Liverpool átti 19 markskot í leiknum en City aðeins fjögur.
Lið City: Hart - Onuoha, Richards, Dunne, Ball - Ireland, Corluka, Elano, Hamann, Petrov - Vassell.
Varamenn: Bojinov, Bianchi, Geovanni, Garrido, Isaksson.
Lið Liverpool: Reina - Finnan, Carragher, Aurelio, Arbeloa - Benayoun, Gerrard, Mascherano, Kewell - Kuyt, Torres.
Varamenn: Voronin, Babel, Riise, Alonso, Itandje.