Franski sóknarmaðurinn Nicolas Anelka sem leikur með Bolton segir í viðtali við netútgáfu franska íþróttablaðsins L'Equipe í dag að hann vonist til að ganga til liðs við Chelsea og segir að viðræður á milli forráðamanna Bolton og Chelsea um kaupin séu í gangi.
Anelka skrifaði undir nýjan fjögurra ára samning við Bolton í haust en þessi öflugi sóknarmaður hefur skorað 10 mörk í úrvalsdeildinni á yfirstandandi leiktíð.
„Stjórnarformenn liðanna eru að ræða saman. Ég vona að það verði að þessu og ég fái þar með tækifæri að spila í Meistaradeildinni,“ segir Anelka við L'Equipe.
Talið er líklegt að Bolton vilji fá um 19 milljónir punda fyrir Anelka, sem jafngildir um 2,3 milljörðum íslenskra króna, en Bolton greiddi 1 milljarð fyrir Frakkann þegar hann kom frá tyrkneska liðinu Fenerbache í ágúst 2006.