Arsenal og Tottenham skildu jöfn, 1:1, í fyrri leik grannliðanna í undanúrslitum enska deildabikarsins í knattspyrnu á Emirates-leikvanginum í kvöld.
Tottenham gerði harða hríð að marki Arsenal eftir rúmlega 30 mínútna leik, fékk nokkur færi í röð, og það bar árangur á 37. mínútu. Dimitar Berbatov sendi þá innfyrir vörnina á Robbie Keane. Hann renndi boltanum þvert fyrir markið á Jermaine Jenas sem afgreiddi hann í netmöskvana, 1:0 fyrir Tottenham.
Arsenal jafnaði metin, 1:1, á 80. mínútu. Eduardo da Silva sendi þá boltann innfyrir vörn Tottenham á Theo Walcott. Varnarmaður reyndi að hreinsa frá en þrumaði boltanum beint í Walcott, í hönd hans að því er virtist, og þaðan þeyttist hann í netið!
Liðin mætast aftur á White Hart Lane, heimavelli Tottenham, eftir hálfan mánuð, en það lið sem hefur betur samanlagt mætir Everton eða Chelsea í úrslitaleik keppninnar.
Leikurinn átti að hefjast kl. 19.45 en var seinkað um 15 mínútur vegna tafa í jarðlestakerfinu í Norður-London.
Arsenal tefldi nánast fram B-liði eins og áður í keppninni. Robin van Persie kom inní liðið eftir meiðsli og tveir sem hafa verið fastamenn að undanförnu voru til taks á bekknum, þeir Bacary Sagna og Eduardo da Silva. Tottenham var hinsvegar nokkurn veginn með sitt sterkasta lið en enski landsliðsmarkvörðurinn Paul Robinson sat þó á bekknum.
Lið Arsenal: Fabianski - J.Houte, Djourou, Senderos, Traore - Walcott, Diaby, Gilberto, Denilson - Bendtner, van Persie.
Varamenn: Eduardo, Randall, Sagna, G.Hoyte, Mannone.
Lið Tottenham: Cerny - Chimbonda, Dawson, King, Lee - Lennon, Jenas, Malbranque, O'Hara - Berbatov, Keane.
Varamenn: Defoe, Taarabt, Boateng, Stalteri, Robinson.