Sam Allardyce er hættur sem knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Newcastle, samkvæmt samkomulagi við stjórn félagsins.
„Ég er mjög vonsvikinn yfir því að þurfa að yfirgefa Newcastle en ég óska félaginu alls hins besta í framtíðinni," sagði Allardyce í yfirlýsingu. Hann er áttundi knattspyrnustjórinni í ensku úrvalsdeildinni sem missir vinnuna á þessu keppnistímabili.
Alan Shearer, fyrrum fyrirliði Newcastle og enska landsliðsins, hefur þegar verið orðaður við stöðuna en Chris Mort, stjórnarformaður Newcastle, sagði að ekki væri búið að finna eftirmann Allardyce.
Nigel Pearson, aðalþjálfari Newcastle, stýrir liðinu gegn Manchester United í úrvalsdeildinni á laugardaginn en Pearson var einmitt aðstoðarmaður Guðjóns Þórðarsonar hjá Stoke City á sínum tíma.
Uppsögnin virðist hafa borið brátt að. Fyrr í dag hélt Allardyce hefðbundinn fréttamannafund þar sem rætt var um næsta leik og þar ræddi hann ítarlega um áform sín varðandi leikmannakaup í janúar. Skömmu eftir fundinn var síðan tilkynnt á vef Newcastle að Allardyce væri á förum frá félaginu.
Allardyce tók við liði Newcastle um miðjan maí, eftir að Glenn Roeder sagði upp störfum. Hann stýrði því aðeins í átta mánuði en frammistaða Newcastle á þessu tímabili hefur valdið talsverðum vonbrigðum. Liðið er í 11. sæti með 26 stig og á litla möguleika á að blanda sér í baráttuna um Evrópusæti eins og stefnt var að.
Allardyce er 53 ára gamall og hafði stýrt Bolton með góðum árangri í átta ár áður en hann réðst til Newcastle. Þar á undan stýrði hann liðum Notts County og Blackpool og Limerick á Írlandi, þar sem hann hóf þjálfaraferlinn árið 1991. Sjálfur spilaði Allardyce 445 deildaleiki á sínum tíma, flesta með Bolton, 184 talsins.