Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði að leikur sinna manna í fyrri og síðari hálfleik gegn Middlesbrough hefði verið eins og svart og hvítt. Lokatölur urðu 1:1, fjórði leikur Liverpool í röð án sigurs.´
Þó lyfti Liverpool sér uppfyrir Manchester City og í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar, en stigatapið þýðir að liðinu mistókst að saxa á forskot þriggja efstu liðanna. George Boateng kom Middlesbrough yfir um miðjan fyrri hálfleik en Fernando Torres jafnaði fyrir Liverpool 20 mínútum fyrir leikslok.
„Fyrri og síðari hálfleikur voru eins og svart og hvítt. Við byrjuðum leikinn vel en misstum svo tökin á honum. Sá seinni var mun betri, liðið skapaði sé færi og við sóttum af miklum krafti. Þetta var allt annað, að öllu leyti. Jafntefli er stundum góð úrslit en þegar maður vill vinna alla leiki er það ekki sem best. Leikmenn okkar lögðu mjög hart að sér og það sást vel á þeim framá síðustu mínútu. Allir leikir okkar eru þannig að við erum nálægt því að sigra svo vonbrigðin eru mikil þegar það tekst ekki," sagði Benítez við Sky Sports.